Innlent

Matarverð hækkar um 15 prósent á ári - eldsneyti um þriðjung

Verð á matvöru hefur hækkað um nærri 15 prósent frá því í apríl í fyrra samkvæmt nýju hefti Hagstofunnar um þróun verðbólgunnar. Þar er bent á að verðbólgan sé nú 11,8 prósent og hafi ekki verið hærri frá því í september 1990.

Ástæðurnar má m.a. rekja til hækkunar á kostnaði vegna húsnæðis, fjórðungshækkunar á verði erlends gjaldeyris frá apríl 2007, mikillar hækkunar á olíuverði og annarra hrávöruverðshækkana á alþjóðamörkuðum.

Þannig hefur verið á innfluttum vörum hækkað um 13,4 prósent á einu ári, þar af verð á nýjum bílum og varahlutum um 19 prósent og verð á bensíni og díselolíu um þriðjung. Til samanburðar hafði það um 2,6 prósent næstu tólf mánuðina á undan.

Enn fremur hefur kostnaður vegna húsnæðis hækkað um nærri fimmtán prósent frá apríl í fyrra og verð á þjónustu hefur hækkað um nærri sjö prósent á sama tíma.

Sem fyrr segir hefur verð á mat og drykkjarvöru hækkað um tæp 15 prósent frá apríl 2007 til apríl í ár og varð mestur hluti hækkunarinnar, rúm 10 prósent, frá desember 2007 til apríl 2008. Til samanburðar sýnir samræmd vísitala neysluverðs fyrir evrópska efnahagssvæðið að verð á mat og drykkjarvöru hafi að meðaltali hækkað um tæp sjö prósent á sama tíma sem er mun meiri hækkun en áður hefur mælst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×