Innlent

Skýrslur teknar í dag vegna kæra á hendur séra Gunnari

Þrjár stúlkur á táningsaldri mæta í skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í tengslum við kærur þeirra á hendur séra Gunnari Björnssyni, sóknarpresti á Selfossi.

Fjórar stúlkur hafa nú kært séra Gunnar fyrir kynferðisbrot. Fjórða kæran barst á þriðjudaginn og er hún frá stúlku um tvítugt. Meint brot eiga þó að hafa átt sér stað þegar hún var undir lögaldri.

Skýrsla verður tekin af þeirri elstu hjá lögreglu en hinar stúlkurnar þrjár, sem eru ekki orðnar 18 ára, mæta í dag niður í Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem skýrslur verða teknar af þeim, einni af annarri, í herbergi sem er sérstaklega útbúið fyrir skýrslutökur af börnum og unglingum. Að sögn lögreglu á Selfossi þótti óheppilegt fyrir trúverðugleika skýrslutökunnar að láta þær fara fram í Barnahúsi vegna tengsla forstöðumanns hússins við fagráð Þjóðkirkjunnar.

Að minnsta kosti tvær stúlknanna höfðu verið virkar í kórstarfi kirkjunnar og meint brot eiga að hafa átt sér stað frá því einhverjar þeirra voru á fermingaraldri. Rannsókn málsins heldur svo áfram í næstu viku og verður séra Gunnar Björnsson líklega yfirheyrður á ný eftir að framburður stúlknanna liggur fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×