Innlent

Sakar ríkið um fálæti í samningaviðræðum

Guðlaug Kristjánsdóttir, sjúkraþjálfari, var kosinn nýr formaður Bandalags háskólamanna nú laust fyrir hádegið. Hún sakar fulltrúa ríkisins um fálæti þar sem eiginlegar samningaviðræður hafi enn ekki hafist þrátt fyrir endurtekna fundi.

Upp úr sauð á aðalfundi BHM í byrjun apríl, með þeim afleiðingum að fresta þurfti fundinum. Fráfarandi formaður, Halldóra Friðjónsdóttir, var umdeild innan samtakanna og óróinn sem braust út á aðalfundinum varð til þess að hún ákvað að stíga úr stóli formanns.

Þráðurinn var tekinn upp að nýju í morgun og nýr aðalfundur settur. Laust fyrir hádegi var síðan kosin ný stjórn og tillaga uppstillinganefndar um Guðlaugu Kristjánsdóttur sjúkraþjálfa sem formann var samþykkt.

Guðlaug segir að samningar við ríkið hafi verið lausir í lok apríl en þrátt fyrir endurtekna fundi hafi ekki verið opnað fyrir eiginlegar samningaviðræður. Guðlaug segir í fréttatilkynningu að fálæti fulltrúa ríkisins sé engan veginn boðlegt. Auk þess segir hún að eini ábyrgi kosturinn sé stuttur samningur eins og staðan sé í þjóðfélagsmálum í dag.

Bandalag háskólamanna er samtök 25 stéttarfélaga háskólamenntaðra. Um tíu þúsund manns eru í félaginu og starfa þeir jafnt hjá hinu opinbera sem og einkafyrirtækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×