Innlent

Ósáttir við að vera stimplaðir ofbeldisseggir

Hlíðaskóli.
Hlíðaskóli.

Ungu mennirnir sem fyrr í kvöld voru sakaður um svíðingsskap við Hlíðaskóla í dag höfðu samband við Vísi og eru ósáttir við fréttaflutning Vísis og Stöðvar 2 af málinu. Þeir segja atburðarrásina hafa verið allt aðra en þá sem sagt var frá í fréttum. Að þeirra sögn var það húsvörðurinn við skólann sem hóf stympingarnar en ekki þeir.

Drengirnir, sem ekki vildu láta nafns síns getið segja farir sínar ekki sléttar. Þeir hafi komið inn á skólalóðina með það í huga að spila körfubolta. Þeir viðurkenna að þeir hafi verið að reykja en að það sé fjarri lagi að þeir hafi veist að krökkunum og hvað þá að þeir hafi sigað á þá bolabítnum sem var með í för. Þvert á móti hafi krakkarnir á frístundaheimilinu sýnt hundinum mikinn áhuga og verið ólm í að fá að klappa honum.

Húsvörðurinn hafi hins vegar verið afar dónalegur og hann hafi átt upptökin að ryskingunum þegar hann hafi slegið til eins drengsins sem var að reykja. Þeir viðurkenna þó að drengurinn hafi verið orðljótur en þrátt fyrir það hafi aldrei staðið til að efna til slagsmála. Húsvörðurinn hafi skipað þeim að yfirgefa lóðina og þegar einn þeirra henti frá sér sígarettunni hafi maðurinn ráðist á hann og tekið hann hálstaki. Við það æstist drengurinn upp en félagar hans staðhæfa að þeir hafi haldið honum frá húsverðinum til þess að koma í veg fyrir frekari slagsmál.

Drengirnir segjast hafa talið sig vera í rétti til að vera á lóðinni þar sem atburðurinn átti sér stað eftir að skólatíma lauk.

Þeir segjast einnig undrast frásögn konunnar sem var á staðnum, en hana segjast þeir ekki hafa yrt á. Að lokum voru ungu mennirnir ósáttir við að lögreglan skyldi ekki hlusta á þeirra málstað, en þegar þeir lýstu atburðinum frá sinni hlið hafi lögreglan ekki viljað heyra þau sjónarmið og yfirgefið vettvanginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×