Innlent

Rústast íslenskur landbúnaður með nýjum lögum frá ESB?

MYND/Valgarður
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, lýsti yfir áhyggjum af því að íslenskur landbúnaður myndir rústast ef nýtt frumvarp landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sem meðal annars kveður á um innflutning á hráu kjöti, yrði að veruleika.

Í fyrirspurnartíma á Alþingi benti Guðni á að þegar vegferð frumvarpsins, sem snýst um viðauka við bókun EES-samningsins, hefði hafist fyrir allnokkru, hafi menn ekki talið að þetta myndi snerta íslenskan landbúnað mikið. Nú fullyrtu bæði mjólkur- og kjötframleiðendur að breytingin myndi dauðrota íslenska kjötframleiðslu. Um 25 þúsund tonn væru framleidd hér á landi og um 800 flutt inn en menn teldu að meðal afleiðinga frumvarpsins væri að kjötinnflutningur myndi aukast um sex til sjö þúsudn tonna. Þetta varðaði störf þúsunda manna hér á landi.

Þá teldu menn fæðuöryggi hér á landi ógnað og hættu á sýkingum í íslenskum búfjárstofnum. Þessi óvissa væri ekki viðunandi og því vildi hann mælast til þess að áhættumat færi fram á öryggi matvælanna sem flutt yrðu inn og hvort dýraöryggi yrði ógnað. Jafnframt að kanna hverjar yrðu mótvægisaðgerðir stjórnvalda til landbúnaðarins vegna þessara breytinga. Skoraði Guðni á landbúnaðarráðherra að fara varlega í málinu.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra benti á að farið hefði verið mjög varlega í málinu en unnið hefði verið að því árum saman. Eitt af því sem hefði verið skoðað væri áhættumat. Gert hefði verið áhættumat varðandi búfjársjúkdóma og sú áhætta hefði verið metin lítil sem engin. Íslendingar væru með heilbrigða stofna og reynt yrði að vernda þá áfram.

Þá sagði hann mikilvægt að afgreiða lögin svo hægt væri að sækja viðbótartryggingar vegna sjúkdóma eins og kamfýlóbakter og salmonellu en þróun þeirra hefði verið svipuð hér og annars staðar á Norðurlöndum. Menn gætu ekki búið við óbreytt kerfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×