Innlent

Vilja að tillögur að Landsbankahöfuðstöðvum verði sýndar

Arkitektar vilja að leynd verði aflétt af tillögum í samkeppni upp á hundruð milljóna um höfuðstöðvar Landsbankans við Reykjavíkurhöfn. Bankinn treystir sér ekki til að birta niðurstöðurnar. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

Heimsfrægar arkitektastofur voru í hópi 21 stofu sem valdar voru til þátttöku. Björgólfur Guðmundsson, aðaleigandi Landsbankans, var sjálfur formaður dómnefndarinnar og lágu niðurstöður hennar fyrir strax í júní. Þær hafa hins vegar aldrei komið fyrir augu almennings. Þátttökuþóknanir og verðlaunafé nam um 150 milljónum króna, en samalagt má gera ráð fyrir að kostnaður við samkeppnina hafi hlaupið á hundruðum milljóna króna. Í ljósi gjörbreyttra aðstæðna blasir þó við að ekki verður byggt eftir vinningstillögunni.

Haft er eftir formanni Arkitektafélags Íslands í Fréttablaðinu að þó sé mjög brýnt sé að tillögurnar komi fyrir almenningssjónir og hvernig hægt sé að nýta þetta svæði í hjarta borgarinnar. Í bréfi til borgarstjóra býðst Arkitektafélagið til að standa fyrir slíkri sýningu. Erindinu hefur verið vísað til skipulagsfulltrúa borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×