Innlent

Hjúkrunarfræðingar hjá ríkinu í yfirvinnubann 10. júlí

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur boðað yfirvinnubann frá og með 10. júlí næstkomandi eftir að fundi þess með samninganefnd ríkisins lauk án árangurs í morgun.

Fram kemur á heimasíðu félagsins að deiluaðilar hafi hist á fundi hjá ríkissáttasemjara en hann hafi engu skilað. Því boði félag íslenskra hjúkrunarfræðinga til yfirvinnubanns hjúkrunarfræðinga sem starfa á samningi við fjármálaráðherra frá kl. 16 fimmtudaginn 10. júlí 2008.

„Frá þeim tíma að telja og þar til samningar nást munu hjúkrunarfræðingar einungis skila vinnuskyldu sinni í samræmi við umsamið starfshlutfall, en er óheimilt að vinna alla yfirvinnu. Stjórn og samninganefnd Fíh harma þá stöðu sem upp er komin en vísa alfarið á stjórnvöld varðandi lausnir á þeim vanda sem boðað yfirvinnubann kann að valda," segir á heimasíðunni.

Atkvæðagreiðsla var meðal hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu á dögunum um yfirvinnubann og vildu um 95 prósent þátttakenda grípa til aðgerðanna til þess að knýja á um nýjan kjarasamning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×