Innlent

Kostnaður við loftrýmiseftirlit fari ekki fram úr fjárlagaheimildum

MYND/GVA
Utanríkisráðherra gerir ekki ráð fyrir að kostnaður við loftrýmiseftirlit nágrannaþjóða Íslands í kringum landið fari fram úr þeim heimildum sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Þetta kom fram í svari ráðherra við óundirbúinni fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri - grænna.

Steingrímur fjallaði um loftrýmiseftirlit Frakka hér við land sem hófst í gær og sagði að kostnaður við slíkt eftirlit á þessu ári yrði 200 milljónir króna samkvæmt fjárlögum. Gert væri ráð fyrir lofteftirliti fjórum sinnum á ári tvær til þrjár vikur í senn.

Franska sveitin yrði hins vegar í sex vikur og kostnaður við það á annað hundrað milljónir króna. Spurði Steingrímur hvort fjárlagaramminn væri sprunginn þar sem von væri á Bandaríkjamönnum og Kanadamönnum til svipaðs eftirlits síðar á árinu. Enn fremur spurði formaður Vinstri - grænna hver réttarstaða frönsku flugsveitanna væri utan tólf mílna lofthelgi Íslands og hvort ríkislögreglustjóri hefði sett reglur um meðferð vopna í loftförum innan íslenskrar lofthelgi.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði spurt um ýmis atriði sem ekki væri hægt að ætlast til að menn hefðu á hraðbergi í óundirbúnum fyrirspurnum. Franska sveitin væri hingað komin í samræmi niðurstöðu á vettvangi NATO eftir að forsætisráðherra hefði óskað eftir því að bandalagið mæti þörfina fyrir loftrýmiseftirlit. NATO hefði komist að því að þörf væri að ratsjáreftirlitskerfi og flugsveitum til eftirlits ársfjórðungslega.

Sagðist hún telja að það væru nokkur tíðindi að Frakkar væru komnir með sína eftirlitssveit. Þetta væri í fyrsta sinn sem aðrir en Bandaríkjamenn hefðu eftirlit með íslenskri lofthelgi. Þetta væri til marks um Evrópvæðingu. Sagði ráðherra enn fremur að ekki yrði farið út fyrir fjárlagarammann varðandi loftrýmiseftirlitið.

Steingrímur J. Sigfússon gagnrýndi orð ráðherra um Evrópuvæðingu og sagði fremur á ferð NATO-væðingu og vígvæðingur. Því svaraði Ingibjörg Sólrún á þann hátt að um öfugmæli væri að ræða hjá formanni Vinstri - grænna því ekki hefði verið minna um vígvæðingu hér á landi í 60 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×