Innlent

Ingibjörg Sólrún í Damaskus að ræða friðarmál

Utanríkisráðherra er hér ásamt Assad, forseta Sýrlands.
Utanríkisráðherra er hér ásamt Assad, forseta Sýrlands.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra fundaði í dag í Damaskus með sýrlenskum ráðamönnum um stöðu mála í Mið-Austurlöndum og málefni Íraks og Íran. Heimsóknin tengist áherslum ráðherra á málefni Mið-Austurlanda og nauðsyn þess að friður komist á fyrir botni Miðjarðarhafs eins og segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.

Utanríkisráðherra fundaði með Bashar Al-Assad, forseta Sýrlands, forsætisráðherranum Mohammad Naji Ottri og Walid Al-Moualem utanríkisráðherra og fór yfir stöðu og horfur í friðarviðræðum fyrir botni Miðjarðarhafs, sérstaklega viðræður Ísraela og Sýrlendinga sem eiga sér stað fyrir milligöngu Tyrkja, og friðarviðræður Ísrael og Palestínumanna. Sérstaklega var rætt hvaða áhrif ágreiningur Fatah-hreyfingarinnar og Hamas-samtakanna hefur á úrlausn þessa máls og viðleitni Sýrlendinga til að koma á sáttum þeirra í millum.

„Einnig var rætt um ástandið í Írak, þar með talinn aðbúnað og aðstoð við íraska flóttamenn í Sýrlandi, en þeir eru nú á bilinu 1,2 til 1,5 milljónir. Utanríkisráðherra skýrði frá aðkomu Íslands að málinu, m.a. ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að veita aðstoð til menntunar íraskra barna í Sýrlandi og Jórdaníu og mótttöku Palestínuflóttamanna frá Írak til Íslands í sumar. Loks var rætt um málefni Líbanon og Íran, auk samvinnu Sýrlendinga við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina en fulltrúar hennar eru í Sýrlandi um þessar mundir," segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×