Innlent

Yngri heilabilunarsjúklingar látnir bíða dauðans í geymslu

Erling og Fanney.
Erling og Fanney. MYND/Úr einkasafni

Íslenska heilbrigðiskerfið gerir vart ráð fyrir að fólk undir 65 ára aldri greinist með heilabilunarsjúkdóm. Sérhæfð úrræði eru af skornum skammti og yfirleitt er sjúklingum einfaldlega komið fyrir á hjúkrunarheimilum með mun eldra fólki þar sem ekkert er ýtt undir andlega virkni. „Geymsla þar sem er beðið eftir að þú deyir," segir einn aðstandandi heilabilunarsjúklings.

Sá næst yngsti átján árum eldri

Fanney Proppé Eiríksdóttir er eiginkona Erlings Proppé. Hann var aðeins 56 ára gamall þegar hann greindist með heilabilun og segir Fanney að kerfið geri vart ráð fyrir að fólk geti greinst svo ungt með heilabilunarsjúkdóm. Erling var komið fyrir á hjúkrunarheimili en sá sem var næstur honum í aldri var átján árum eldri.

Fanney segir að hjúkrunarheimili eins og það sem Erling hafi verið komið fyrir á sé lítið annað en geymsla. Að hennar mati vantar alla virkni inn á hjúkrunarheimilið, hugað sé að líkamlegum þáttum en ekki andlegum. „Fólki er einfaldlega komið fyrir inn á deild og ekkert er um iðju- eða sjúkraþjálfun og hvað þá eitthvað hópefli eða tómstundastarf,“ segir Fanney. 

Vantar heimili á borð við sérbýli

Fanney segir að bæði hún og Félag aðstandenda Alzheimerssjúkra og annarra skyldra sjúkdóma (FAAS) hafi í nokkurn tíma barist fyrir sérhæfðari úrræðum en með litlum árangri. Að mati Fanneyjar væri betra að koma upp minni einingum með meira heimilislegum og persónulegri brag, ekki ósvipað og sambýli fyrir þroskahefta.

„Það vantar þetta heimilislega umhverfi sem heldur betur utan um manneskjuna og aðstandendur í leiðinni. Svona eins og sambýli þar sem er verið að sinna þér eins og þú eigir heima þarna en sért ekki bara kominn í geymslu og verið sé að bíða eftir því að þú deyir," útskýrir Fanney.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×