Innlent

Ráðherrar borga 15 þúsund fyrir afnot af ráðherrabílum

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Ráðherrarbílar fyrir utan Stjórnarráðið.
Ráðherrarbílar fyrir utan Stjórnarráðið.

Ráðherrar greiða í grunninn 14.896 krónur á mánuði fyrir einkaafnot af ráðherrabílum. Allir núverandi ráðherrar hafa einkabílstjóra og aka um á ráðherrabílum í eigu hins opinbera. Ráðherrar hafa heimild til að nota bílana til takmarkaðra einkanota.

Ráðherrar greiða skatt af bifreiðahlunnindum sínum. Samkvæmt skriflegum upplýsingum frá forsætisráðuneytinu til Vísis er miðað við að ráðherrar aki bílunum 2500 kílómetra á ári og greiði 71,5 krónur á hvern ekinn kílómetra. Miðað við það greiðir hver og einn ráðherra í grunninn 14.896 krónur á mánuði eða 178.750 krónur á ári fyrir einkaafnot af ráðherrabíl sínum.

Að auki greiða ráðherrar fyrir ekna kílómetra til og frá heimilum sínum. Skattur af bifreiðahlunnindum er því breytilegur eftir ráðherrum. Þannig greiðir Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sem býr í Háuhlíð í Reykjavík lægri skatt af ráðherrabíl sínum en Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sem býr á Grænuvöllum á Selfossi.

Skattmat fyrir takmörkuð afnot bifreiðar er endurskoðað á hverju ári. Leiða má að því líkur að gjaldið fyrir hvern ekinn kílómetra verði hærra á næsti ári í ljósi eldsneytishækkana undanfarinna mánuða.

Takmörkuð einkanot er hugtak í skattalegum skilningi til aðgreiningar frá óheftri notkun. Með takmarkaðri notkun er átt við aktstur á milli vinnustaðar og heimilis og annarra einstakra ferða.














Tengdar fréttir

Í lagi að nota ráðherrabíla í eigin þágu

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að ráðherrum sé heimilt að nota ráðherrabifreiðar í einkaerindum. ,,Það er alveg ljóst að ráðherrum er heimilt að nota bifreiðar í einkaþágu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×