Innlent

Vöruskiptahalli dregst saman um 37 milljarða milli ára

Aukinn útflutningur á áli hefur mikil áhrif á vöruskiptajöfnuðinn.
Aukinn útflutningur á áli hefur mikil áhrif á vöruskiptajöfnuðinn. MYND/GVA

Vöruskipti við útlönd reyndust óhagstæð um 3,2 milljarða króna í ágúst síðastliðnum samkvæmt tölum Hagstofunnar. Fluttar voru út vörur fyrir 31,3 milljarða króna en inn fyrir 34,5 milljarða.

Þetta er töluverður viðsnúningur frá sama mánuði í fyrra en þá reyndust vöruskiptin óhagstæð um rúma 17 milljarða króna á sama gengi. Það sem af er ári hafa verið fluttar út vörur fyrir um 272 milljarða króna en inn fyrir 317 milljarða. Hallinn á vöruskiptum fyrstu átta mánuði ársins er því um 45 milljarðar sem er 37 milljörðum króna minni halli en á sama tíma í fyrra.

Þegar nánar er litið á vöruútflutning á fyrstu átta mánuðum ársins þá reyndist hann 35 milljörðum eða nærri 15 prósentum meiri en á sama tímabili í fyrra. Þannig jókst útflutningur iðnaðarvara eins og áls um nærri 50 prósent milli ára en verðmæti útfluttra sjávarafurða var hins vegar fimm prósentum minna en á sama tíma árið áður. Vöruinnflutningur var um tveimur milljörðum eða 0,6 prósentum minni frá janúar til ágústloka í ár en á sama tíma í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×