Innlent

Vinna saman að atvinnuþróun við Keflavíkurflugvöll

MYND/Stöð 2

Geir H. Haarde forsætisráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra, Kristján L. Möller samgönguráðherra og fulltrúar sveitarfélaganna fimm á Suðurnesjum, Grindavíkurbæjar, Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfélagsins Voga, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um samstarf um atvinnuþróun í nágrenni Keflavíkurflugvallar.

Samstarfið byggist á þeirri sérstöðu sem felst í nálægð alþjóðaflugvallarins. Fram kemur á vef forsætisráðuneytsins að til viðbótar við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar sem stofnað var við brotthvarf hersins sé stefnt að því að auka enn frekar samstarf ríkis og sveitarfélaga með það fyrir augum að laða nýja fjárfesta að svæðinu.

Reynsla erlendis frá sýni að þannig geti alþjóðlegir flugvellir orðið mikilvægur aflvaki hagvaxtar. „Umhverfis Keflavíkurflugvöll er eitt stærsta ónýtta landsvæði í nágrenni alþjóðaflugvallar í Evrópu og skilyrði til vaxtar og þróunar því einstök," segir enn fremur á vef forsætisráðuneytisins.

Stefnt er að því að gera samstarfssáttmála þar sem þróunarsvæði verður skilgreint, afmörkuð verði sú atvinnustarfsemi sem laða eigi að svæðinu, ákveðið hvernig kostnaði og tekjum verður skipt og skipulagsmál samhæfð. Stefnt er að því að ljúka samningaviðræðum fyrir 1. janúar 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×