Innlent

Segir Geir taka skell fyrir ríkisstjórnina

Katrín Júlíusdóttir
Katrín Júlíusdóttir

Katrín Júlíusdóttir þingmaður Samfylkingar segir niðurstöður úr skoðanakönnun fréttastofu stöðvar 2 frá því í gærkvöldi koma sér nokkuð á óvart. Niðurstöður könnunarinnar sem Capacent Gallup framkvæmdi fyrir fréttastofuna sýna að 47% svarenda treysta Geir Haarde ekki til þess að leiða Ísland út úr þeirri kreppu sem nú stendur yfir.

„Það er samt auðvitað ekki auðvelt að vera oddviti ríkisstjórnarinnar við þær aðstæður sem nú ríkja í efnahagslífinu. Fólk er með miklar væntingar og orðið langþreytt eftir áþreifanlegum aðgerðum," segir Katrín sem fagnaði mjög yfirlýsingum Geirs í Markaðnum í gærkvöldi.

„Hann lýsti því yfir í gær að þessar lausnir eiga eftir að koma og auðvitað tekur þetta allt sinn tíma, það duga engar skyndilausnir í svona ástandi," segir Katrín sem telur að slæm útkoma Geirs tengist því að hann sé oddviti ríkisstjórnarinnar.

„Auðvitað er hann að taka einhvern skell við svona aðstæður, alveg óháð því hvort hann eigi það skilið eða ekki. Hann er ekki í öfundsverðri stöðu."

Katrín telur ekki líklegt að þessar niðurstöður hafi áhrif á traust Samfylkingarfólks gagnvart Geir.

„Nei alls ekki. Hann hefur reynst góður leiðtogi fyrir hópinn og það er gott að vinna með honum."

Aðspurð hvort hún telji skynsamlegt að Geir stigi til hliðar og einhver annar kæmi inn í hans stað segir Katrín það ekki koma til greina.

„Ég hef aldrei verið fylgjandi því að skipta um hest í miðri á, og hvað þá við þessar aðstæður. Það er heldur enginn sem ég sæi koma inn í hans stað."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×