Innlent

Ríkisstjórnin taki af skarið um samráð

Allar forsendur kjarasamninga eru farnar út og suður, segir Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands. Hann segir verkalýðshreyfinguna tilbúna að leggja sitt af mörkum til að lágmarka skaðann og kallar eftir því að ríkisstjórnin taki af skarið.

Verkalýðsforingjar horfa hjálparvana upp á harkalega brotlendingu efnahagskerfisins þessa dagana. „Við höfum auðvitað þingað æði stíft frá því seinni partinn í ágúst út af efnahagsástandinu, allar forsendur kjarasamnminga eru farnar út og suður og við erum ekki komin með neinar mótaðar tillögur en vonandi fæðast þær áður en langt um líður," segir Grétar.

Hann segir ASÍ hafa verið að kalla eftir samráði við ríkisstjórn og Samtök atvinnulífsins allt frá því í vor. „Slíkt samráð hefur ekki átt sér stað enn þá. Við höfum hitt þetta fólk en samráð í okkar huga byggist á því að aðilar sitji saman við borð, horfist í augu og ræði málin. Það skilar oftast árangri," segir Grétar.

Aðspurður segist hann sakna þess að fá ekki alvöru fund með ríkisstjórninni. „Auðvitað er það ríkisstjórnin sem verður að taka af skarið. Við erum ekki í ríkisstjórn þannig að við getum ekki tekið af skarið," segir Grétar og segir verkalýðshreyfinguna tilbúna að leggja sitt af mörkum ef um einhvers konar samráð verði að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×