Erlent

Brown vill breyta IMF

MYND/AP

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, vill að starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði endurskipulögð í þeirri viðleitni að koma betra skikki á hið alþjóðlega fjármálakerfi og forða því að lausafjárkreppa lík þeirri sem nú ríkir endurtaki sig.

Þetta sagði hann fyrir fund leiðtoga Evrópusambandsins sem fram fer í dag í Brussel. Brown sagði að hinar alþjóðlegu fjármálastofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefðu ekki lengur burði til þess að fylgjast með hinum mjög svo tengdu fjármálafyrirtækjum heimsins. Þá kallaði hann einnig eftir því að komið yrði á fót einhvers konar viðvörunarkerfi fyrir hið alþjóðlega hagkerfi og að aukin áhersla yrði lögð á eftirlit með fjölþjóðlegum fyrirtækjum.

Brown átti í morgun fund með Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um bankakreppuna. Barroso sagði eftir fundinn að ríki Evrópusambandsins yrðu að endurskipuleggja regluverk fyrir fjármálastofnanir og sömuleiðis eftirlit með bönkum, húsnæðislánafyrirtækjum og vogunarsjóðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×