Innlent

Álframleiðsla nærri þrefaldast á sex árum

MYND/GVA

Tæplega 1500 manns vinna við álver á Íslandi og afleidd störf álvera eru um 3.100 samkvæmt svari sem Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra gefur í fyrirspurn Valgerðar Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins.

Valgerður spurði ráðherra hvert framlag áliðnaðarins til þjóðarbúsins væri, meðal annars eftir fjölda starfa, tekjum ríkissjóðs og hlutfalli af útflutningstekjum. Fram kemur í svari iðnaðarráðherra að upplýsingar um heildartekjur ríkissjóðs af áliðnaði liggi ekki fyrir en að álfyrirtækin hafi árið 2007 greitt einn og hálfan milljarð í tekjuskatt.

Þá er bent á að í fyrra hafi útflutningstekjur vegna álframleiðslu numið tæpum 18 prósentum af heildarútflutningstekjum fyrir vörur og þjónustu en að með aukinni álframleiðslu fari hlutfallið upp í 30 prósent á þessu ári og yfir 30 prósent á því næsta.

Fram kemur í tölum iðnaðarráðherra að álframleiðsla hafi aukist úr 282 þúsund tonnum árið 2002 í 760 þúsund tonn á þessu ári. Er þar um að ræða nærri þreföldun á framleiðslu hér á landi að ræða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×