Innlent

Nærri fimmtíu starfsmenn borgarinnar á hærri launum en Jakob

Ólafur F Magnússon
Ólafur F Magnússon

Vegna umræðna um launagreiðslur hjá Reykjavíkurborg vill borgarstjóri árétta að nálægt 20 starfsmenn borgarinnar hafa yfir kr. 950.000,- í mánaðarlaun.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá borgarstjóra. Þar segir ennfremur að á fimmta tug starfsmanna Reykjavíkurborgar hafa hærri laun en nýráðinn framkvæmdastjóri miðborgarmála, sem eru kr. 710.000,- og eru það sömu laun og fyrrum miðborgarstjóri, Kristín Einarsdóttir hafði í tíð R-listans.

Í þessu samhengi skal bent á að leitað var til fyrrum miðborgarstjóra R-listans um að taka að sér starf framkvæmdastjóra miðborgarmála áður en leitað var til Jakobs F. Magnússonar.

Miðborg Reykjavíkur hefur farið hnignandi á undanförnum árum. Borgaryfirvöld ákváðu að bregðast við þeim vanda með fjölþættum aðgerðum innan borgarkerfisins í samstarfi við aðila í miðborginni snemma í vor. Einn liður í áðurnefndum aðgerðum fólst í því að ákveðið var að ráða starfsmann til að sinna málefnum miðborgarinnar.

Þar sem flýta þurfti ráðningu og um tímabundna ráðningu var að ræða var ákveðið að auglýsa ekki eftir starfsmanni heldur leita að öflugum einstaklingi sem gæti tekið fljótt til starfa vegna brýnna verkefna í mðborginni.

Kannað var hvort slíkur starfsmaður væri tiltækur innan borgarkerfisins og var leitað til sviðsstjóra ýmissa sviða um ábendingar en það bar ekki árangur. Sérstaklega var leitað til fyrrverandi miðborgarstjóra Kristínar Einarsdóttur, aðstoðarsviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs sem kom í viðtal.

Auk þess var leitað til einstaklings utan borgarkerfisins sem kom líka í viðtal. Viðtöl við þessa einstaklinga fóru fram í fullu samráði við skrifstofustjóra borgarstjóra, sem var viðstödd viðtölin.

Eftir ítarlega leit bar nafn Jakobs F. Magnússonar á góma. Leitað var til hans og var hann ráðinn í starf framkvæmdastjóra miðborgarmála.

Ranglega hefur verið haldið fram af borgarráðsfulltrúum minnihlutans að staða framkvæmdastjóra miðborgarbmála sé sambærileg við stöðu verkefnisstjóra sem auglýst var í desember 2007 en svo er alls ekki.

Staðan er fyllilega sambærileg við stöðu fyrrum miðborgarstjóra og framreiknuð laun þeirrar stöðu eru hin sömu og laun nýráðins framkvæmdastjóra miðborgarmála.

Sú staðreynd að leitað var til Kristínar Einarsdóttur sem gegndi starfi miðborgarstjóra í tíð R-listans vitnar um að hér var ekki um pólitíska ráðningu að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×