Lífið

Fengu ekki litað blek á jólakortin

Rakel með jóla-kreppukortin sem hún hannaði ásamt Katrínu Ingu og Unu Björk.
Rakel með jóla-kreppukortin sem hún hannaði ásamt Katrínu Ingu og Unu Björk.

„Allt litaða blekið var fast í tollinum svo við urðum að hafa kortin svarthvít,“ segir Rakel McMahon myndlistarkona um svokölluð jóla-kreppukort sem hún hannaði ásamt Unu Björk Sigurðardóttur og Katrínu Ingu Katrínar.

„Við útskrifuðumst allar úr Listaháskólanum í vor og þegar Katrín Inga bar upp þessa hugmynd ákváðum að láta verða af því að gera jólakort sem eru ekki alveg eins og þessi hefðbundnu. Við hönnuðum fjögur kort á mann, seljum saman tólf í pakka og prentum þau sjálfar. Við ætluðum að hafa þau í lit, en fyrst það var ekki hægt urðu þau bara svolítið pönkuð og lýsandi fyrir ástandið sem ríkir í dag,“ segir Rakel, en fyrsta upplagið af kortunum er þegar uppselt.

Á yfirlitskortinu í pökkunum stendur að tíu krónur af hverju korti renni til styrktar íslensku þjóðinni og verði lagðar inn á öruggan bankareikning í Sviss, en aðspurð segir Rakel það vera meira í gríni en alvöru. „Þetta var meira gert á húmorískum nótum og okkur fannst vera smá kaldhæðni í því í ljósi þess sem gerðist,“ útskýrir Rakel og segir þær stöllur vera í þann mund að prenta fleiri kort.

„Við höfum verið með kort á okkur og selt fólki sem við hittum, en um helgina ætlum við að vera á jólamarkaðnum í gamla Byko húsinu og selja kort, húsgögn, myndlist, föt og fleira,“ segir Rakel, en þeir sem vilja kaupa kort síðar geta sent póst á rakelmc@visir.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.