Innlent

Vilja endurskoðun laga um öryggisþjónustu

Öryggisvörður að störfum.
Öryggisvörður að störfum. MYND/VALLI

Árásir á öryggisverði að undanförnu kalla á að sá lagarammi sem öryggisfyrirtæki starfa eftir sé tekinn til gagngerrar endurskoðunar að mati Öryggismiðstöðvarinnar.

„Það hafa komið fram raddir um auknar heimildir öryggisvarða til að bera varnarbúnað eins og handjárn og piparúða, en sú umræða er að okkar mati óviðeigandi við núverandi aðstæður," segir Ómar Örn Jónsson hjá Öryggismiðstöðinni. Áður en til slíkrar umræðu getur komið verðum við að fara yfir hvaða lagalegu kröfur eru gerðar til öryggisvarða og öryggisfyrirtækja.

Lagaramminn er mjög opinn í dag og í raun ekkert sem hindrar að kalla megi óþjálfaða starfsmenn öryggisverði. Við slíkar aðstæður er útilokað að rýmka heimildir öryggisvarða til að bera varnarbúnað að sögn Ómars. Jafnframt sé samkeppnisumhverfi þeirra öryggisfyrirtækja sem leggja metnað í öfluga þjálfun öryggisvarða gert erfiðara fyrir við þessar aðstæður.

Nágrannalöndin langt á undan

Ómar bendir á að rétt sé að horfa til nágrannalanda okkar í þessum efnum. „Þau eru komin langt á undan okkur hvað varðar löggjöfina og t.d. má nefna að öryggisverðir í Danmörku bera oft á tíðum handjárn og annan varnarbúnað. Í ákveðnum tilvikum er þeim heimilt að handtaka fólk og jafnvel leita á þvi ef svo ber undir. Öryggisverðir þar í landi starfa eftir skýrum lagaákvæðum sem gefa nákvæmar leiðbeiningar um hvenær má grípa til slíkra ráðstafana.

Til að öðlast starfsleyfi sem öryggisvörður þar í landi þarf að sækja og standast próf á sérstöku námskeiði fyrir öryggisverði, sem er viðurkennt af opinberum aðilum. Námskeiðið tekur m.a. á sjálfsvörn, öryggisleit, handtökum, lögum og reglugerðum, skýrslugerð, fjarskiptum, brunavörnum, skyndihjálp, framkomu, verndun vettvangs og sönnungargagna og stjórnun á vettvangi," segir Ómar og bætir við að samhliða endurskoðun lagaákvæða þurfi að auka enn frekar samráð öryggisfyrirtækja og lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×