Innlent

Hálfa öld í rusli

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Óskar Ágústsson og Sigríður Guðrún Jónsdóttir eiginkona hans.
Óskar Ágústsson og Sigríður Guðrún Jónsdóttir eiginkona hans. MYND/Reykjavíkurborg

Óskar Ágústsson, bílstjóri hjá Sorphirðunni í Reykjavík, hefur um þessar mundir náð 50 ára starfsaldri en hann er 66 ára. Ljóst er að Óskar man tímana tvenna í sorpmálum höfuðborgarsvæðisins.

Í spjalli við Vísi segist Óskar hafa byrjað ungur að vinna hjá Ríkisskipum en verkstjórinn þar rekið hann. Þá hafi hann starfað um hríð hjá Eimskip en fært sig svo yfir í sorphirðuna vorið 1958 þar sem frændi hans var verkstjóri. Þar hefur Óskar unnið síðan og fagnar 50 ára starfsafmælinu á Kaffi Flóru í Grasagarði Reykjavíkur klukkan þrjú á morgun. Óskar segir að fyrstu árin hafi sorpinu verið sturtað í sjóinn við Skerjagranda.

„Ég fór á sjóinn, Skjaldbreið, Lagarfoss, Reykjafoss og Gullfoss. En ég ætlaði ekkert að vera alla ævi í því," segir Óskar. Hann segir frá því að þegar hann hóf störf hafi 20 bílar sinnt sorphirðu í borginni. Þeir hafi hins vegar verið mun minni en þeir sem nú eru notaðir. Tekið hafi klukkutíma að fylla hvern bíl og þá var farið og losað, fyrst í sjóinn en svo uppi á Höfða þar sem búinn var til áburður úr sorpinu.

„Þetta voru allt olíutunnur og miklu erfiðara að lyfta þeim. Núna eru þetta plasttunnur og miklu meira sorterað," segir Óskar. Hann segist ekki vita hve lengi enn hann starfi, sennilega bara á meðan heilsan leyfi. „Ég stunda líkamsrækt og ég stunda sundið," segir Óskar og lætur engan bilbug á sér finna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×