Erlent

Indverjar reiðir yfirvöldum öryggismála

Íbúar Mumbai minnast fórnarlamba árásanna með kertaljósum í grennd við Taj Mahal-hótelið. Viðstaddir létu líka í ljós reiði sína.
Íbúar Mumbai minnast fórnarlamba árásanna með kertaljósum í grennd við Taj Mahal-hótelið. Viðstaddir létu líka í ljós reiði sína. fréttablaðið/ap

Innanríkisráðherra Indlands sagði af sér í gær í kjölfar þeirrar gagnrýni sem á öryggisyfirvöldum ríkisins hefur dunið vegna hinna blóðugu árása hryðjuverkamanna í Mumbai sem hófust síðastliðinn miðvikudag en ekki tókst að binda enda á fyrr en á laugardag. 174 létu lífið í árásunum, sem tíu manna hópur herskárra múslima frá Pakistan framdi að því er lögregluyfirvöld í Mumbai fullyrða.

Í gær var enn verið að bera lík fólks út úr Taj Mahal-glæsihótelinu, en þar stóð viðureignin við vel vopnaða hryðjuverkamennina lengst, enda héldu þeir fjölda fólks, mikið til erlendum ferðamönnum, í gíslingu.

Innanríkisráðherrann Shivraj Patil lagði inn afsögn sína og forsætisráðherrann Manmohan Singh féllst á hana í gær, að því er skrifstofa Indlandsforseta greindi frá.

„Ráðamenn okkar snúast í kringum sjálfa sig er saklausir láta lífið“, mátti lesa í fyrirsögn dagblaðsins Times of India.

Rakesh Maria, háttsettur lögreglustjóri í Mumbai, greindi frá því í gær að árásarmennirnir hefðu verið herskáir liðsmenn pakistönsku öfgasamtakanna Lashkar-e-Taiba.

Samtökin hafa lengi verið álitin búin til af pakistönsku leyniþjónustunni til að hjálpa til við að heyja óopinbert stríð við Indverja um yfirráð yfir Kasmír-héraði.

Áður hafði bandarískur embættismaður, sérhæfður í hryðjuverkavörnum, sagt að sum einkenni Mumbai-árásanna bentu til að Lashkar kynnu að vera að verki, ásamt öðrum hópi sem líka hefur látið að sér kveða í Kasmír. Bæði samtök eru sögð hafa tengst vil al-Kaída-hryðjuverkanetið.

Opinber tala látinna í árásunum var leiðrétt úr 195 í 174 í gær. Að sögn talsmanna yfirvalda höfðu sum líkin verið talin tvisvar. Þeir tóku fram að tala látinna gæti hækkað aftur þegar búið væri að fínkemba Taj Mahal-hótelið, þar sem fleiri lík kynnu að finnast.

Meðal hinna látnu voru átján útlendingar. Níu af árásarmönnunum tíu voru drepnir, einn var handtekinn á lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×