Innlent

Salmonella á sambýli aldraðra á höfuðborgarsvæðinu

Fjórir einstaklingar tengdir sambýli aldraðra á höfuðborgarsvæðinu greindust með salmonellu í upphafi mánaðarins eftir því sem segir í nýjum Farsóttarfréttum Landlæknisembættisins. Um var að ræða tvo starfsmenn og tvo heimilismenn.

Sýkingar af völdum þessarar salmonellutegundar, sem nefni Salmonella poona eða farmsen, eru fremur sjaldgæfar og ekki hefur komið upp innlent smit af hennar völdum áður hérlendis. Hins vegar hefur hennar orðið vart í fleiri löndum Evrópu í apríl og maí, samanlagt milli 30-40 tilfelli.

Ekki er með fullu vitað hvort þetta er sami stofn í öllum löndunum, en unnið er við stofnagreiningu til að bera stofnana saman. Svo virðist sem tilfellum fari nú fækkandi og sýkingin því á undanhaldi. Sóttvarnastofnanir þeirra landa þar sem sýkingin hefur greinst taka þátt í sameiginlegri vinnu við úrlausn faraldursins í samvinnu við Sóttvarnastofnun Evrópu sem kemur að samræmingu aðgerða.

Sex kampýlóbaktersýkingar á Reyðarfirði í maí

Þá kemur fram í Farsóttarfréttum að fyrstu fimm mánuði ársins bárust samtals 30 tilkynningar frá sýklafræðideild Landspítala til sóttvarnalæknis um kampýlóbaktersýkingar í mönnum. Þar af smituðust ellefu einstaklingar á Íslandi, átta á Spáni, tveir í Dóminíkanska lýðveldinu og á Ítalíu og einn í Marokkó og Alsír en upplýsingar um smitland vantar fyrir fimm einstaklinga.

Flestir hinna smituðu, eða 16, voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu en athygli vekur að sex einstaklingar með búsetu á Reyðarfirði greindust í maímánuði. Sýkingarnar á Reyðarfirði voru ekki tengdar ferðalögum heldur smituðust einstaklingarnir á staðnum.

Upptök smitsins eru ókunn þrátt fyrir ítarlega rannsókn í samvinnu við heilbrigðiseftirlit Austurlands og lækna á Austurlandi en svo virðist sem faraldurinn á Reyðarfirði sé genginn yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×