Erlent

Ekki er allt sem sýnist - eða..?

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Skjáskot úr leiknum Maple Story sem Japanar eru einna duglegastir allra þjóða við að stunda.
Skjáskot úr leiknum Maple Story sem Japanar eru einna duglegastir allra þjóða við að stunda. MYND/AFP/Getty Images

Japönsk kona á fimmtugsaldri gæti átt yfir höfði sér fimm ára fangelsi fyrir að villa á sér heimildir í veröld sýndarveruleikans.

Fjörutíu og þriggja ára kona í japanska bænum Miyazaki hefur heldur betur lifað tvöföldu lífi og rétt eins og lagt var fyrir söguhetjuna í kvikmyndinni The Matrix á annað þeirra sér framtíð en hitt ekki.

Í tölvuleiknum Maple Story skapa þátttakendurnir sér persónu sem vex og dafnar með þeim. Þeir kynnast þar öðrum slíkum persónum og geta gengið með þeim í hjúskap og hvaðeina. Þar með hljóta þeir líka að geta dáið, rétt eins og í raunveruleikanum.

Konan sem hér er sagt frá tók það svo óstinnt upp þegar maki hennar í leiknum - maður sem hún hafði í raun aldrei hitt nema þar - sleit sýndarhjónabandi þeirra fyrirvaralaust að hún skráði sig inn í leikinn sem persóna hans og framdi þar eins konar sýndarsjálfsmorð. Hafði konan komist yfir aðgangsorð hins rafræna eiginmanns meðan allt lék í lyndi og beitti því svo með þessum afdrifaríku afleiðingum.

Maðurinn varð fyrir áfalli þegar hann uppgötvaði andlát sitt, ef svo mætti segja, og hefur konan nú verið ákærð fyrir tölvuinnbrot, eða hakk eins og það heitir. Einhverjir kunna að minnast skáldsögu Neals Stephenson, Snow Crash, frá 1992.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×