Sport

Sigrún Brá ekki sátt - heimsmet í undanrásunum - Myndir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigrún Brá í lauginni í morgun.
Sigrún Brá í lauginni í morgun. Mynd/Vilhelm

Sigrún Brá Sverrisdóttir náði ekki að bæta Íslandsmet sitt í 200 metra skriðsundi á Ólympíuleikunum í Peking í morgun. Hún var rúmri sekúndu frá meti sínu.

Sigrún Brá synti á sjöttu braut í fyrsta riðli og kom í sjötta og síðasta sæti í mark í sínum riðli. Tími hennar var 2:04,82 mínútur en Íslandsmet hennar er 2:03,35 mínútur.

Alls varð hún í 45. sæti af 46 keppendum.

"Ég fór ekkert of hratt af stað og það var ekkert að eyðileggja sundið. Þetta bara gekk ekki núna og þannig er það stundum. Ég er ekki sátt með sundið, ég get ekki neitað því," sagði Sigrún Brá sem var fjarri sínu besta líkt og aðrir íslenskir sundmenn á Ólympíuleikunum.

"Ég svaf vel um nóttina en dagurinn var frekar lengi að líða. Það er örlítið skrítið að hafa undanrásir á kvöldin. Ég hefði gjarna viljað hafa þetta um morguninn. Mér finnst það betra. Þá þarf maður ekkert að hugsa um sundið allan daginn."

Federica Pellegrini frá Ítalíu gerði sér lítið fyrir og setti heimsmet í undanrásunum er hún synti á 1:55,45 mínútum. Gamla metið átti Laure Manaudou frá Frakklandi.



Sigrún Brá Sverrisdóttir keppti í 200 metra skriðsundi. Hún synti á sjöttu braut í fyrsta riðli. Vilhelm Gunnarsson
Hún náði sér ekki á strik og synti á 2:04,82 mínútum sem er tæpri einni og hálfri sekúndu frá Íslandsmeti hennar í greininni. Vilhelm Gunnarsson
Alls varð hún í 45. sæti af 46 keppendum í greininni. Síðar í undanrásunum setti Federica Pellegrini frá Ítalíu heimsmet í greininni. Vilhelm Gunnarsson
„Ég er ekki sátt með sundið, ég get ekki neitað því," sagði Sigrún Brá við Vísi skömmu eftir að hún kom upp úr lauginni. Vilhelm Gunnarsson
Erla Dögg Haraldsdóttir keppti í 200 metra fjórsundi í morgun sem var hennar síðasta grein á leikunum. Vilhelm Gunnarsson
Hún synti á 2:20,53 mínútum sem er tæpum tveimur sekúndum yfir Íslandsmeti hennar. Alls varð hún í 35. sæti af 38 keppendum. Vilhelm Gunnarsson
"Mér leið ágætlega í sundinu. Ég reyndi að njóta þess og vera ákveðin. Mér leið samt svipað og síðast. Leið ekkert "súper" en þetta var allt í lagi," sagði Erla Dögg. Vilhelm Gunnarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×