Innlent

Fengu ekki að gista í flóttamannabúðunum

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Frá Al Waleed flóttamannabúðunum.
Frá Al Waleed flóttamannabúðunum.

Ingibjörg Broddadóttir, formaður sendinefndar flóttamannaráðs, sem nýverið var í Al Waleed flóttamannabúðunum í Írak segir ferðina hafa gengið eftir atvikum vel. Ferðin var farin til að undirbúa komu flóttamanna til Íslands í haust. Vegna ótryggs ástands var sendinefndinni ekki leyft að dvelja í flóttamannabúðunum að nóttu til. ,,Við upplifðum ástandið ekki sem ótryggt," segir Ingibjörg. Gist var í herstöð í grennt við búðirnar.

Í flóttamannabúðunum dvelja rúmlega 1700 einstaklingar. Í þeim er rekinn skóli og lítil heilsugæsla af fólkinu í búðunum með aðstoð frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Frá Al Waleed flóttamannabúðunum.

Átta palestínskum fjölskyldum verður boðið hæli hér á landi. Um er að ræða tíu konur, allar einstæðar mæður, og 19 börn. Ingibjörg segir að sendinefndin hafi rætt við talsvert fleiri einstaklinga. Áður hafði Flóttamannastofnun SÞ flokkað konurnar eftir hverjar eru í mestri neyð.

,,Hverju sinni miðum við fyrst og fremst við þær aðstæður sem Ísland hefur upp á að bjóða," segir Ingibjörg og bætir að flóttamannanefndin telur aðstæður hér landi góðar og henta einstæðum foreldrum vel. ,,Hér er almennt viðurkennt að konur geta verið höfuð fjölskyldunnar. Við höfum góða skóla og leikskóla og heilbrigðiskerfið er öflugt."

 

Íslenska sendinefndin í Al Waleed flóttamannabúðunum ásamt hermönnum fjölþjóðahers SÞ.

Ekki liggur ljóst fyrir hvenær hópurinn kemur til landsins. Félagsmálaráðuneytið hefur frá 1996 haldið utan um komu flóttamanna til landsins. ,,Við viljum ævinlega að hóparnir komi á sumrin svo börnin geti byrjað í skólanum á eðlilegum tíma en það hefur tekist misvel í gegnum árin. Það þarf að huga að mörgum atriðum," segir Ingibjörg.


Tengdar fréttir

Átta palestínskar fjölskyldur koma til landsins

Átta palestínskum fjölskyldum verður boðið hæli hér á landi samkvæmt ákvörðun félagsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Um er að ræða tíu konur, allar einstæðar mæður, og 19 börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×