Erlent

Afríkuleiðtogar vilja enda ógöngur Mugabe

Thabo Mbeki og Robert Mugabe í Harare í dag.
Thabo Mbeki og Robert Mugabe í Harare í dag. MYND/AFP

Neyðarfundur leiðtoga landanna í kringum Simbabve hófst í Sambíu í dag og miðar að því að enda þá stöðu sem uppi er í Simbabve í kjölfar forsetakosninganna. Þrátt fyrir það er Robert Mugabe forseti Simbabve ekki á fundinum. Hann sagðist hafa annað að gera.

Forseti Sambíu hóf þingið og sagði að ekki væri hægt að líta framhjá ástandinu í Simbabve, en tók fram að fundinum væri ekki beint gegn Mugabe.

Thabo Mbeki hitti Mugabe í Harare höfuðborg Simbabve fyrr í dag og sagði að það væri engin „krísa" í landinu.

Zanu flokkur Mugabe tapaði meirihluta á þingi í fyrsta sinn síðan árið 1980 í þingkosningunum 29. mars. Niðurstöður forsetakosninganna sem fóru fram sama dag hafa ekki verið birtar.

Morgan Tsvangirai stjórnarandstöðuleiðtogi segist hafa unnið kosningarnar og vonar að leiðtogarnir þrýsti á Mugabe að láta af embætti.

Fjórtán lönd eiga aðild að Þróunarsamfélagi sunnanverðrar Afríku sem heldur fundinn í Lusaka. Levy Mwanawasa forseti Sambíu sagði að ekki væri hægt að sitja aðgerðarlaus þegar einn meðlimanna á í stjórnarfars- og efnahagskrísu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×