Erlent

Jacqui Smith er verndari gleðistunda

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Innanríkisráðherrann Jacqui Smith. Líklegt er að einhverjir breskir öldurhúsagestir drekki hennar skál á svokölluðum „happy hours“ næstu daga.
Innanríkisráðherrann Jacqui Smith. Líklegt er að einhverjir breskir öldurhúsagestir drekki hennar skál á svokölluðum „happy hours“ næstu daga.

Bresk öldurhús sleppa naumlega við að svonefndar gleðistundir verði afnumdar með lögum þar í landi.

Óminnishegri heitir sá er yfir öldrum þrumir, hann stelur geði guma. Þannig greina Hávamál frá fuglinum óminnishegra sem rænir drykkjumenn viti sínu og skynsemi. Í gær var greint frá miklum úlfaþyt meðal breskra ráðamanna um kurteisi í aðvörunum á áfengisumbúðum.

Nú er svo komið að breskir siðgæðisverðir vilja banna gleðistundir eða happy hours á þarlendum börum við ærið misjafnar undirtektir. Öllum að óvörum stígur innanríkisráðherrann Jacqui Smith fram í dag og tilkynnir að ekkert verði af slíku banni. Þess í stað verði komið á málamiðlun þess efnis að öldurhúsunum verði ekki leyfilegt að auglýsa tilboð um að gestirnir geti gusað í sig að vild sólskininu sem borið er fram í glösum gegn fyrirframákveðinni upphæð, til dæmis 10 breskum pundum.

Ráðherrann telur skynsamlegra að veita afslátt meðan á gleðistundinni stendur án þess þó að gefa út ákveðna upphæð. Heimildamaður Telegraph innan breska innanríkisráðuneytisins sagði einfaldlega: „Þrír fjórðu hlutar fólks drekka eins og fólk. Hinir gera það ekki og það er það sem við þurfum að bregðast við."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×