Erlent

Sá á pund sem finnur

Breskur sorphirðumaður í Mið-Englandi á von á góðum jólum. Það er að segja ef hann er duglegur að setja saman púsluspil.

Í maí síðastliðnum fann Graham Hill þykkan bunka af niðurskornum 10 og tuttugu punda seðlum í ruslatunnu sem hann var að tæma í bænum Lincoln í Mið-Englandi.

Samtals voru þetta tíu þúsund sterlingspund eða um tvær milljónir íslenskra króna. Graham afhenti lögreglunni seðlasnifsin. Hún hefur síðan reynt að grafast fyrir um upprunann. Lögreglan komst lítið áfram í rannsókn sinni. Og þar sem hún gat ekki fundið neinar vísbendingar um að peningarnir væru stolnir eða á annan hátt tengdir ólöglegri starfsemi fékk Graham þá aftur.

Englandsbanki hefur sagt að hann muni skipta peningunum fyrir nýja og heila seðla, en aðeins ef Graham takist að púsla þeim saman þannig að augljóst sé að þeir hafi verið gjaldgeng mynt. Sérstaklega þurfa tvö raðnúmer að vera skýr. Graham Hill hefur því nóg að dunda sér við fram að jólum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×