Innlent

RKÍ leggur til fimm milljónir vegna hamfara í Búrma

MYND/AP

Rauði kross Íslands hefur veitt 5 milljónir króna úr hjálparsjóði sínum til neyðaraðstoðar í Búrma til handa fórnarlömbum fellibylsins Nargis sem reið yfir landið síðasta föstudag.

Rauði krossinn hefur þegar hafið dreifingu á brýnustu nauðsynjum svo sem drykkjarvatni, fatnaði, matvælum, segldúk og hreinlætisvörum. Tölur um mannfall eru óljósar þar sem landið er einangrað en yfirvöld hafa þó staðfest að yfir 20 þúsund manns hafi farist í hamförunum og yfir 40 þúsund er saknað. Stjórnvöld í Búrma hafa beðið um alþjóðlega aðstoð.

Í tilkynningu frá Rauða krossi Íslands segir að sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins í landinu hafi unnið sleitulaust frá því að fellibylurinn reið yfir landið og dreifa þeir neyðarbirgðum sem til voru í vöruhúsi félagsins. Mikilvægast þessa stundina sé að koma fólki sem misst hefur heimili sín í skjól og veita því aðgang að hreinu vatni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×