Fótbolti

Spánverjar rúlluðu yfir Rússana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Spánverjar fagna fyrsta marki sínu í kvöld.
Spánverjar fagna fyrsta marki sínu í kvöld. Nordic Photos / AFP
Spánverjar eru komnir í úrslit EM 2008 eftir 3-0 sigur á Rússum í undanúrslitum í kvöld. Mörkin komu öll í síðari hálfleik.

Xavi skoraði fyrsta mark leiksins, þá varamaðurinn Dani Güiza og loks David Silva. Spánverjar áttu sigurinn skilið en þeir yfirspiluðu Rússana lengst af í kvöld.

Rússland hafði heillað marga með frammistöðu sinni gegn Svíþjóð í lokakeppni riðlakeppninnar og svo gegn Hollandi í fjórðungsúrslitunum. En Rússarnir voru langt frá því að endurskapa þá töfra og skærasta stjarna liðsins, Andrei Arshavin, sást varla í leiknum.

Spánverjar stilltu upp sama liði og vann Ítalíu í vítaspyrnukeppni í fjórðungsúrslitunum. Rússar gerðu eina breytingu á sínu liði frá síðasta leik þar sem Denis Kolodin tekur út leikbann í kvöld. Vasili Berezutski kom inn í liðið í hans stað.

David Villa þurfti reyndar að fara af velli vegna meiðsla eftir um hálftímaleik og kom Cesc Fabregas inn á í hans stað.

Spánverjar stjórnuðu leiknum sem var þó fremur rólegur í fyrri hálfleik. Fernando Torres átti tvær þokkalegar marktilraunir að marki sem Igor Akinfeev varði.

Bestu marktilraun Rússa átti Roman Pavlyuchenko. Hann átti þrumuskot að marki sem Iker Casillas varði stórglæsilega, þó svo að boltinn hafi ekki stefnt inn í markið.

En þess fyrir utan var fyrri hálfleikur tíðindalítill og óhætt að segja að hann hafi ekki staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru til leiksins.

Grenjandi rigning var í Vínarborg í kvöld en leikmenn létu það ekki á sig fá og héldu ótrauðir áfram.

Síðari hálfleikur hófst fremur rólega en eftir tæpan fimm mínútna leik kom skyndilega mark hjá Spánverjum.

Um var að ræða glæsilegan samleik liðsfélganna Xavi og Andrés Iniesta hjá Barcelona. Xavi bar boltann upp miðjuna, gaf á Iniesta sem sneri af sér nokkra varnarmenn og gaf boltann inn í teig. Þar kom Xavi á sprettinum og skoraði af stuttu færi.

Spánverjar héldu áfram að sækja eftir þetta og enn komst Fernando Torres í ágæt færi án þess þó að ná að skora. Honum var svo skipt af velli á 69. mínútu fyrir Dani Güiza.

Aðeins fjórum mínútum síðar var skiptingin búin að borga sig. Cesc Fabregas, annar varamaður, átti eitraða sendingu yfir öftustu varnarlínu rússneska liðsins. Güiza tímasetti hlaup sitt hárrétt, slapp við rangstöðugildruna, og átti í engum vandræðum með að afgreiða knöttinn í

Á 82. mínútu kom svo þriðja markið og aftur var það Fabregas sem átti heiður að markinu. Iniesta átti langa sendingu upp kantinn á Fabregas sem lék upp að vítateigshorninu, sendi á David Silva sem stóð í miðjum vítateignum og skoraði með laglegu skoti.

Þar með voru úrslitin ráðin og mæta Spánverjar því Þýskalandi í úrslitum Evrópumótsins. Leikurinn fer fram í Vínarborg á sunnudaginn kemur.

Fyrsta mark Spánverja í kvöld var algert rothögg fyrir Rússana sem sáu aldrei til sólar eftir það.

Andrei Arshavin var algerlega týndur í þessum leik og hafði það mikið að segja um frammistöðu rússneska liðsins. Hann var í banni í fyrstu tveimur leikjum mótsins og spiluðu Rússarnir engu betur þá enda töpuðu þeir fyrir Spánverjum, 4-1, í fyrstu umferð riðlakeppninnar.

Spánverjar léku glimrandi vel lengst af í leiknum, sér í lagi í síðari hálfleik. Miðað við hinn undanúrslitaleikinn er ljóst að Þjóðverjar þurfa að bæta sína frammistöðu talsvert til að eiga roð í Spánverja í úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×