Innlent

Kona í Sauðárkróksmáli laus úr gæsluvarðhaldi - Málið upplýst

Lögreglan hefur upplýst fíkniefnamál sem kom upp á Sauðárkróki um helgina. Þetta er mesta magn fíkniefna sem lögreglan á Sauðárkróki hefur gert upptækt í einni aðgerð.

Kona á fimmtugsaldri sem hefur áður komið við sögu lögreglunnar og hefur setið í gæsluvarðhaldi í tengslum við málið hefur verið sleppt úr haldi.

Við húsleit í bæjarfélaginu var lagt hald á 450 grömm af kannabisefnum og 12 grömm af amfetamíni.

Í tengslum við málið voru fjórir aðilar handteknir, einn á Sauðárkróki, tveir í Reykjavík og einn á Suðurnesjum. Auk þess var framkvæmd húsleit í Reykjavík í tengslum við málið þar sem hald var lagt fíkniefni og vopn.

Konan var úrskurðuð í gæsluvarðhald til 25. september. Hún hefur viðurkennt að hafa ætlað efnin til sölu á norðurlandi en hluti þeirra átti að vera til einkaneyslu. Öllum aðilum málsins hefur nú verið sleppt og telst málið upplýst.

Að rannsókn málsins unnu lögreglan á Sauðárkróki, Akureyri, Suðurnesjum, ávana-og fíkniefnadeild lögreglu höfðuborgarsvæðisins auk starfsmanna sérsveitar ríkislögreglustjóra.






Tengdar fréttir

Stærsti fíkniefnafundur í sögu Sauðárkróks

Umtalsvert magn fíkniefna fannst á Sauðárkróki aðfaranótt laugardags. Lögregla vill ekki gefa upp hve mikið magnið er eða af hvaða tegund, en um fleiri en eina tegund mun vera að ræða. Það er fréttamiðillinn Feykir í Skagafirði sem segir frá þessu en málið var unnið í samvinnu lögreglunnar á Sauðarkróki og fíkniefnateymis lögreglunnar á Norðurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×