Innlent

Stærsti fíkniefnafundur í sögu Sauðárkróks

Umtalsvert magn fíkniefna fannst á Sauðárkróki aðfaranótt laugardags. Lögregla vill ekki gefa upp hve mikið magnið er eða af hvaða tegund en um fleiri en eina tegund mun vera að ræða. Það er fréttamiðillinn Feykir í Skagafirði sem segir frá þessu en málið var unnið í samvinnu lögreglunnar á Sauðarkróki og fíkniefnateymis lögreglunnar á Norðurlandi.

Feykir greinir einnig frá því að kona sem býr í húsinu hafi verið handtekin og úrskurðuð í gæsluvarðhald fram til 25.september. Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki segir í samtali við Feyki að þetta sé mesta magn fíkniefna sem lögreglan á Sauðárkróki hefur gert upptækt í einni aðgerð. Hann segir einnig ljóst að samstarf lögregluembætta á Norðurlandi í fíkniefnamálum hafi sannað ágæti sitt og að lögreglan sé mun betur í stakk búin til þess að takast á við mál af þessu tagi.

Húsleitin mun hafa verið gerð í kjölfar húsleitarheimildar frá Héraðsdómi Norðurlands vestra en áður hafði undirbúningur og rannsókn málsins staðið yfir í nokkurn tíma. „Í framhaldi aðgerða lögreglu á Sauðárkrók var farið í húsleit á höfuðborgarsvæðinu þar sem einnig fundust fíkniefni ásamt vopnum," segir einnig á Feyki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×