Innlent

Þriðji ísbjörninn á Skaga?

Tveir ísbirnir hafa þegar verið felldir á Skaga, annar á Þverárfjalli og hinn við Hraun á Skaga.
Tveir ísbirnir hafa þegar verið felldir á Skaga, annar á Þverárfjalli og hinn við Hraun á Skaga.

Þyrla Landhelgisgæslunnar er væntanleg norður á Skaga í Skagafirði til þess að kanna hvort þriðji ísbjörninn sé þar. Eftir því sem segir í tilkynningu lögreglunnar á Sauðárkróki barst henni tilkynning frá fólki í gærkvöld, sem var á göngu við Bjarnarvötn á Skaga, um að það hefði hugsanlega séð ísbjörn við Bjarnarfell.

Sá fólkið tilsýndar hvítt dýr sem hreyfði sig þunglamalega. Fólkið náði ljósmyndum af dýrinu en þær munu þó vera nokkuð óskýrar. Eftir skoðun myndanna og viðræður við fólkið, sem lögregla telur trúverðugt, var ákveðið að leita svæðið úr lofti. Var notast við tvær flugvélar í nótt við leitina en þoka gerði þó leitarmönnum erfitt fyrir.

Sem fyrr segir er vona á þyrlu Landhelgisgæslunnar sem halda mun leitinni áfram. Vill lögreglan beina því til vegfaranda á þessu svæði að sýna aðgát og hvetur hún fólk til þess að vera ekki á ferð á þessum slóðum að óþörfu.

Bjarnarvötn eru nokkuð sunnar en Hraun þar sem síðasti björninn kom á land en norðaustan við Þverárfjall þar sem fyrsti björninn var felldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×