Innlent

Atkvæðagreiðslu um yfirvinnubann hjá hjúkrunarfræðingum lokið

Elsa B. Friðfinnsdóttir er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Elsa B. Friðfinnsdóttir er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. MYNDE.Ól

Atkvæðagreiðslu um boðun yfirvinnubanns meðal hjúkrunarfræðinga lauk á miðnætti og mun stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hittast á fundi í hádeginu í dag og fara yfir niðurstöðuna.

Eftir því sem fram kemur á heimasíðu félagsins verður ákveðið þar hvort niðurstaðan verður tilkynnt að loknum stjórnarfundinum eða hvort beðið verður með það fram yfir fund með samninganefnd á miðvikudag.

Kosið var um það rafrænt hvort yfirvinnubann meðal hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu skyldi taka gildi frá 10. júlí. Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði í samtali við Vísi fyrir skemmstu að ef af yfirvinnubanninu yrði myndi skapast neyðarástand frá fyrsta degi.

Samningaviðræður félagsins við samninganefnd ríkisins hafa staðið frá því í um miðjan mars og hafa ekki borið árangur. Deilt er um það hversu mikið laun hjúkrunarfræðinga skuli hækka og býður ríkið sams konar samning og gerður var við BSRB á dögunum. Forsvarsmenn hjúkrunarfræðinga segja hins vegar að hann feli í sér kjararýrnun og vilja með aðgerðunum knýja ríkið til samninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×