Innlent

Nær allir hjúkrunarfræðingar fylgjandi yfirvinnubanni

Nærri 95 prósent þeirra hjúkrunarfræðinga, sem tóku þátt í könnun meðal Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um hvort boða ætti til yfirvinnubanns 10. júlí, eru fylgjandi slíku banni. Þetta kemur fram á heimasíðu Féalgs íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Atvkæðagreiðslu um málið með hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu lauk á miðnætti og voru rúmlega tvö þúsund á kjörskrá en rúmlega 1300 greiddu atkvæði. Nærri tveir af hverjum þremur hjúkrunarfræðingum tóku því þátt í könnuninni. Af þeim sem greiddu atkvæði voru 94,6 prósent fylgjandi boðun yfirvinnubanns en 5,4 prósent andvíg.

Ákveðið var að boða atkvæðagreiðsluna vegna þess hve erfiðlega Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur gengið að ná sátt við ríkið um nýjan kjarasamning. Fundur í deilunni er boðaður hjá ríkissáttasemjara á miðvikudag.

Í framhaldi þess fundar mun Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga gefa frá sér yfirlýsingu um hvort staðið verði við yfirvinnubannið en ef af því verður mun það hafa mikil áhrif á starfsemi spítalanna í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×