Innlent

Hægt að bjóða út rekstur á ráðherrabílum

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Bílstjórar og ráðherrarbílar fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu.
Bílstjórar og ráðherrarbílar fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu.

Guðmundur Hannesson, forstöðumaður ráðgjafarsviðs Innkaupastofnunar, segir að hægt sé að bjóða út kaup og rekstur á ráðherrabifreiðum. ,,Það er hugsanlegt. Það er hægt að bjóða allt út," segir Guðmundur.

Guðmundur segir eðlilegt að skoða reksturinn almennt. ,,Aftur á móti er varasamt að segja nú skulum við taka ráðherrabílana og bjóða þá út og sjá hvað gerist. Það þarf að hafa skýr markmið og tryggja að ráðherrunum sé tryggð sama þjónusta og þeir hafa í dag," segir Guðmundur.

Nauðsynlegt er að horfa á heildarmyndina og taka hliðsjón af því hvað kostar að skipta úr einu rekstrarformi yfir í annað. ,,Það þarf alltaf að spyrja hvað eitthvað kostar í dag, hvað myndi kosta að bjóða það út og hvað fengu við í staðinn. Ef það er ekki gert þá getur maður sitið uppi með jafngóðar lausnir en kostnaðurinn við að skipta yfir gæti reynst þegar uppi er staðið mikill," segir Guðmundur.

Guðmundur segir frumkvæði að breyttu rekstrarformi ráðherrabifreiða verða að koma frá forsætis- eða fjármálaráðuneytinu. Þau geta leitað til Ríkiskaupa og beðið um að hugsananleg tilfærsla verði skoðuð. ,,Hjá okkur er talsverð kunnátta til að greina svona hluti. Einnig er hægt að leita til einkaaðila sem veita ráðgjafaþjónustu," segir Guðmundur.








Tengdar fréttir

Borga 2,6 prósent af heildarkostnaði ráðherrabíla

Ráðherrar greiða 2,6 prósent af heildarkostnaði við rekstur ráðherrabifreiða. Ráðherrar greiða skatt af bifreiðahlunnindum sínum og er samanlagur kostnaður þeirra rúmar 2,2 milljónir á ári. Á árunum 1998 til 2003 var meðalkostnaður á ári við rekstur bílanna 82,3 milljónir.

Í lagi að nota ráðherrabíla í eigin þágu

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að ráðherrum sé heimilt að nota ráðherrabifreiðar í einkaerindum. ,,Það er alveg ljóst að ráðherrum er heimilt að nota bifreiðar í einkaþágu."

Hugsanlega þarf að endurskoða reglur um ráðherrabíla

,,Það má velta fyrir sér hvort að skattareglurnar þurfi að endurskoða en ég hef ekki kynnt mér þær nægjanlega vel svo ég geti sagt nákvæmlega til um það," segir Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×