Innlent

Halldór vissi af aðgerðum ríkisstjórnar klukkan þrjú

Halldór J. Kristjánsson
Halldór J. Kristjánsson

Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans og formaður stjórnar Samtaka fjármálafyrirtækja, vissi klukkan þrjú um fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna erfiðrar stöðu á fasteigna- og fjármálamarkaði og kynntar voru einum og hálfum tíma síðar síðastliðinn fimmtudag. Þetta er staðfest í yfirlýsingu sem Landsbankinn sendi frá sér í dag.

Stuttu eftir að mörkuðum lokaði eða rúmum hálftíma eftir að hann vissi af aðgerðunum sendi Halldór stjórnarmönnum í Samtökum fjármálafyrirtækja tölvupóst um fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Landsbankinn keypti íbúðarbréf fyrir 4,2 milljörðum meira en það seldi þennan sama dag sem var mun meira en dagana áður. Vakti það upp spurningar hvort Landsbankinn hafi haft einhverjar meiri og betri upplýsingar um aðgerðirnar en aðrir bankar.

Yfirlýsing frá Landsbanka Íslands hf.

Í tilefni af fjölmiðlaumfjöllun varðandi sölu Landsbankans á íbúðabréfum í aðdraganda þess að kynntar voru breytingar af hálfu ríkisstjórnar Íslands á Íbúðalánasjóði vill Landsbanki Íslands hf. koma eftirfarandi á framfæri.

Starfsmönnum sem annast viðskipti með skuldabréf af hálfu Landsbankans var alls ekki kunnugt um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar fyrr en fréttir þar um voru birtar opinberlega. Farið hefur verið yfir sögu viðskipta bankans með skuldabréf þennan dag og engar óeðlilegar hreyfingar koma þar fram. Einungis fern viðskipti voru með íbúðabréf eftir kl. 15.00 þennan dag og í öllum tilvikum var þar um að ræða viðskipti sem byggjast á hlutverki Landsbankans sem viðskiptavaka með viðkomandi bréf. Landsbankinn hafði þannig ekki frumkvæði að sölu umfram það að setja fram tilboð á markaði í samræmi við samning milli bankans og Íbúðalánasjóðs um viðskiptavakt.

Halldóri J. Kristjánssyni bárust upplýsingar um að væntanleg væri yfirlýsing um fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar um kl. 15.00 þann 19. júní s.l. sem formanni stjórnar Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF). Hann taldi rétt að gera öðrum stjórnarmönnum aðvart um þessar breytingar og bað Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóra SFF að annast útsendingu til þeirra. Öðrum stjórnarmönnum var gert aðvart um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar með tölvupósti sem sendur var kl. 15.36 eða sex mínútum eftir að markaði með skuldabréf og hlutabréf var lokað.

Af ofangreindu er ljóst að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hafði engin áhrif á ákvarðanir starfsmanna Landsbankans um viðskipti með íbúðabréf og engin óeðlileg viðskipti áttu sér stað af hálfu Landsbankans.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×