Innlent

Síðasta útskrift Kennaraháskóla Íslands á morgun

Nanna Hlín Halldórsdóttir skrifar
Ólafur Proppé lætur af störfum sem rektor KHÍ þegar skólinn sameinast Háskóla Íslands.
Ólafur Proppé lætur af störfum sem rektor KHÍ þegar skólinn sameinast Háskóla Íslands.

Á morgun kl. 11 munu 496 kandídatar útskrifast úr KHÍ í Laugardagshöll. Mun þetta verða seinasta útskrift úr Kennaraháskólanum en háskólinn er að fara að sameinast Háskóla Íslands 1. júli næstkomandi. 409 eru að útskrifast úr grunnnámi og 86 úr framhaldsnámi, þar af 12 með meistaragráðu.

Um seinustu helgi útskrifuðust fyrstu og seinustu nemendurnir með doktorsgráðu frá skólanum. KHÍ átti 100 ára afmæli á dögunum þannig að mikið er um merkisviðburði í kringum skólann um þessar mundir.

,,Sérstök tilfinning" var lýsingin sem Ólafur Proppé rektor KHÍ notaði yfir síðustu útskriftina á morgun í samtali við Vísi í dag. Hann segir bæði trega og tilhlökkun varðandi næsta skref skólans, trega að hætta að starfa undir því nafni sem skólinn hefur starfað undir í 100 ár en tilhlökkun yfir möguleikunum sem búa í því að starfa innan Háskóla Íslands og þroska og bæta stöðugt menntavísindi á landinu.

Sjálfur mun hann hætta störfum stuttu eftir sameininguna, kominn á eftirlaunaaldur en hann segist líklegast munu taka að sér verkefni sem varða menntamál á landinu.

Fimm ný svið innan Háskóla Íslands

Steinunn Halldórsdóttir er verkefnastjóri sameiningar háskólanna tveggja. ,,Þetta gengur mjög vel" sagði hún um sameiningu skólanna. ,,Það verða þrjár deildir á Menntavísindasviði" en starfsemi Kennaraháskólans mun falla undir það svið innan Háskóla Íslands. Uppeldis og menntunarfræðiskor innan HÍ mun einnig falla undir það svið í uppeldis og menntunarfræðideild en annars mun Menntavísindasvið ná yfir núverandi starf KHÍ. Hinar deildirnar eru kennaradeild og íþrótta, tómstunda og þroskaþjálfadeild.

Starfsemi hins nýja sviðs mun að mestu fara fram í Stakkahlíð og á Laugavatni enn um sinn en áætlanir eru um að byggja nýtt húsnæði á háskólasvæðinu. Er þar sérstaklega horf til lóðar á horni Suðurgötu og Hjarðarhaga.

Samfara þessum breytingum verður uppbyggingu á deildum Háskóla Íslands gjörbreytt þannig að eftir breytingar verða til fimm svið í stað ellefu deilda áður. Yfir hverju sviði fyrir sig mun koma ný staða sem nefnist ,,forseti fræðasviðs" og var auglýst í þessar 5 stöður um seinustu helgi. Deildarforsetar munu þó enn sitja yfir hverri deild innan sviðanna en starf þeirra mun breytast nokkuð vegna hins nýja embættis forseta fræðasviðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×