Erlent

Framkvæmdastjórn ESB blandar sér ekki í deilu Breta og Íslendinga

Jose Manuel Barroso, formaður framkvæmdastjórnar ESB.
Jose Manuel Barroso, formaður framkvæmdastjórnar ESB.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun ekki blanda sér í milliríkjadeilu Breta og Íslendinga. Jose Manuel Barroso, formaður framkvæmdastjórnarinnar, sagði í dag að embættismenn á vegum Evrópusambandsins væru reiðubúnir til þess að hjálpa Íslendingum og auðvelda öll samskipti. Hins vegar þyrftu Íslendingar og Bretar að ræða sín máli í milli.

Barroso sagði enn fremur að Ísland væri einn af nánustu samstarfsríkjum Evrópusambandsins og það hefði orðið illa úti í bankakreppunni. Það hefði valdið bæði íslenskum og erlendum fyrirtækjum búsifjum. Hvatti hann Evrópusambandsríkin sem málið snerti að ræða lausn vandans við Íslendinga. ,,Framkvæmdastjórnin er tilbúin að aðstoða Íslendinga og stuðla að samstarfi hvenær sem er," sagði Barroso og bætti við að Íslendingar myndu sigrast á erfiðleikunum.

Fram kom á blaðamannafundi sem Geir Haarde forsætisráðherra hélt í dag að hann hafi rætt við ráðamenn í heiminum í dag og í gær, þar á meðal Barroso, Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra NATO, og forsætisráðherra Lúxemborgar, Noregs og Finnlands. Geir sagði aðspurður að hann og Scheffer hefðu rætt þá ákvörðun Breta að beita hryðjuverkalögum gegn íslenskum fyrirtækjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×