Erlent

G8-ríkin funda um breytingar á regluverki fjármálakerfi heimsins

MYND/AP

Leiðtogar átta helstu iðnríkja heims hafa ákveðið að funda á næstunni um breytingar á regluverki fyrir fjármálakerfi heimsins.

Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkjanna átta, Banaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Ítalíu, Þýskalands, Kanada, Japans og Rússlands kemur fram að breytingar verði að verða á reglukerfi og eftirlitsstofnunum í hinu alþjóðlega fjármálakerfi til þess að bregðast við þeim vanköntum sem komið hafi í ljós í yfirstandandi lánsfjárkreppu.

Meðal þess sem viðrað hefur verið eru breytingar á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Engin tímasetning er tilgreind fyrir fundinn en aðeins sagt að leiðtogarnir muni hittast í náinni framtíð til þess að leggja drög að breytingum til þess að takast á við verkefni 21. aldarinnar. BBC hefur eftir Gordon Brown að fundurinn verði á næstu vikum.

Fyrr í dag hittust leiðtogar Evrópusambandsríkjanna í Brussel þar sem blessun var lögð yfir aðgerðir evrulandanna sem samþykktar voru á sunnudag. Þær fela meðal annars í sér að ríkin tryggi innstæður í bönkum upp að eitt hundrað þúsund evrum. Fundinum verður framhaldið á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×