Innlent

Dísellítrinn nálgast óðfluga 200 krónur

MYND/GVA

Verð á eldsneyti hækkaði enn og aftur í dag og í gær og vantar nú aðeins rúmum tveimur krónum upp á að verð á dísilolíu með þjónustu komist í 200 krónur.

Hækkarnirnar nú nema þremur krónum hjá flestum aðilum og kostar bensínlítrinn með þjónustu nú 181 krónu og 40 aura og dísilolíulítrinn 197 krónur og 80 aura. Verðið á eldsneytinu er nokkru lægra í sjálfsafgreiðslu en þar kostar bensínið víða 176 krónur og 40 aura og dísilolía 192 krónur og 80 aura.

Að sögn Magnúsar Ásgeirssonar, innkaupastjóra hjá N1, má rekja hækkanirnar til falls krónunnar og hækkandi eldsneytisverðs en hann segir hvern dag skipta olíufélögin máli.

Aðspurður hvort einhver merki séu um lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu segir Magnús að hann hafi ákveðinn grun um að svo sé ekki. Staðan á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði, þar sem bréf hafi lækkað töluvert, hafi þau áhrif að fjárfestar snúi sér að kaupum á hrávöru eins og olíu og hrísgrjónum. Það þýði að verðið á þeim hækki. Eins hafi tíðindi af hugsanlegum árásum á Íran áhrif á olíuverðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×