Innlent

Fjöldauppsagnir hjá Icelandair fráleitt einsdæmi

MYND/Anton Brink

Boðaðar uppsagnir Icelandair Group eru í hópi mestu fjöldauppsagna í sögu landsins. Þær eiga sér þó hliðstæður í sögu flugrekstrar hér á landi.

Eins og fram hefur komið í fréttum hyggst Icelandair segja upp 240 manns á næstunni, þar á meðal um 200 flugmönnum og flugfreyjum. Það bætist við um 80-100 manns sem sagt verður upp hjá Flugþjónustunni á Keflavíkurflugvelli sem einnig er dótturfélag Icelandair Group. Samtals fækkar því störfunum um 320-340 hjá samstæðunni en alls starfa um 3500 hjá Icelandair Group víða um heim.

Uppsagnirnar eru einar þær fjölmennustu í Íslandssögunni en ná þó ekki uppsögnum sem fylgdu brotthvarfi varnarliðsins fyrir um tveimur árum. Þá misstu um 900 starfsmenn vinnu sína. Af nýlegum dæmum má einnig nefna uppsagnir hjá deCode árið 2002 en þá var um 200 manns sagt upp.

Svipuðum fjölda sagt upp fyrir sjö árum

Fjöldauppsagnir hjá Icelandair eru fjarri því nýjar af nálinni. Tvisvar á síðustu 30 árum hefur svipuðum fjölda og nú verið sagt upp. Í kringum árið 1980, þegar olíukreppa gekk yfir heiminn, var um 300 sagt upp hjá Flugleiðum, forvera Icelandair. Að sögn Jóns Karls Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Icelandair og núverandi forstjóra JetX/Primera Air, flugfélags Heimsferðasamsteypunnar, héldu menn þá að flug myndi almennt hverfa af landinu og aðeins ein til tvær vélar yrðu notaðar. Sú hafi hins vegar ekki orðið raunin.

Þá bendir Jón Karl á að í kjölfar árásanna á Bandaríkin 11. september 2001 hafi orðið mikill samdráttur í ferðaþjónustu og þá hafi á bilinu 240-300 manns verið sagt upp hjá Icelandair. Í bæði þessi skipti hafi hlutfallslega fleiri starfsmönnum verið sagt upp en núna.

Flugiðnaður mjög háður efnahagssveiflum

Aðspurður segir Jón Karl að flugiðnaðurinn sé mjög háður efnahagssveiflum og menn spái mjög djúpri sveiflu nú. „Við höfum séð svipaða þróun í Bandaríkjunum að undanförnu en ekki í Evrópu og við virðumst því fylgja meira þróuninni í Bandaríkjunum," segir Jón. Hann bendir á að gríðarlegar eldsneytishækkanir hafi mikil áhrif á starfsemi flugfélaga um þessar mundir en ekki sér fyrir endann á þeim hækkunum.

Aðspurður telur hann þó að menn haldi áfram að ferðast þótt vissulega dragi úr ferðum. Hann bendir á að eins og í svo mörgu öðru eigi Íslendingar heimsmet í ferðalögum til útlanda og á síðasta ári hafi meðalmaðurinn farið um fimm til sex sinnum til útlanda. „Það fækkar eflaust ferðunum en menn hætta ekki að fara í stóru fríin sín," segir Jón Karl.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×