Innlent

Varar við ruslskilaboðum í síma

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Hrannar Pétursson er upplýsingafulltrúi Vodafone.
Hrannar Pétursson er upplýsingafulltrúi Vodafone.

Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, varar fólk við gylliboðum og ruslsendingum í formi smáskilaboða. Flestir kannast við að fá senda tölvupósta þar sem gulli og grænum skógum er lofað. Slíkar tilkynningar berast einnig reglulega í síma fólks.

Í gær barst fjölda símnotenda hér á landi smáskilaboð þar sem þeim var tilkynnt að viðkomandi hefði unnið 170.000 evrur. Til að innheimta fjárhæðina þyrfti einungis að hafa samband í ákveðið símanúmer eða netfang. 170.000 evrur jafngilda 22 milljónum íslenskra króna.

,,Við vörum fólk við þessum sendingum. Þumalputtareglan er sú að ef þú hefur ekki viljandi tekið þátt í einhverjum leik þá ertu alveg örugglega ekki að vinna neitt. Ef það er of gott til að vera satt þá er það ekki satt," segir Hrannar.

,,Þetta kemur upp annað slagið og þá verðum við var við einhver hundruð skilaboða í hvert skipti," segir Hrannar og bætir við að símafyrirtækin hafi ákveðnar varnir. ,,Þessir aðilar eru engu að síður oftast klárir og þeir finna gjarnan nýjar leiðir þannig að þetta verður hálfgerður eltingarleikur."

Hrannar segir símafyrirtækin sjái í gegnum hvaða erlendu símafyrirtæki sendingarnar koma en eðli málsins sé ekki hægt að loka á viðkomandi fyrirtæki. ,,Ef þú ert kúnni í útlöndum og vilt senda venjulegt sms þá viljum við ekki vera búin að loka fyrir viðkomandi símafyrirtæki."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×