Sautján ára piltur var í Héraðsdómi Suðurlands sakfelldur fyrir bílþjófnað og innbrot en ekki gerð sérstök refsing þar sem hann hafði nýverið hlotið þungan dóm í Hæstarétti.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa í félagi við annan í janúar í fyrra stolið bíl í vesturbæ Reykjavíkur og ekið að Gaulverjaskóla í Flóahreppi. Þar brutust þeir inn og rændu fimm fartölvum sem þeir hugðust koma úr landi með hraðsendingu.
Pilturinn játaði brot sín og var sakfelldur í samræmi við það. Hann á að baki sakaferil og var meðal annars í febrúar síðastliðnum dæmdur í Hæstarétti Íslands í fjögurra ára fangelsi fyrir fjölmörg brot. Brotin sem ákært var fyrir nú voru framin fyrir þann dóm og var það mat dómsins að gera piltinum ekki frekari refsingu.