Innlent

Dæmt í Keilufellsárás - Þyngsti dómurinn þrjú og hálft ár

Tveir mannanna mæta í Héraðsdóm fyrir stundu.
Tveir mannanna mæta í Héraðsdóm fyrir stundu. MYND/JÓN HÁKON

Fjórir pólskir karlmenn hlutu dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir húsbrot og sérstaklega hættulega líkamsárás í Keilufelli þann 22. mars síðastliðinn. Einn mannana, Tomasz Krzysztof Jagiela, hlaut þriggja og hálfs árs fangelsisdóm en þeir Marcin Labuhn, Robert Kulaga og Tomasz Roch Dambski voru dæmdir í tvö og hálft ár.

Í öllum tilfellum er refsingin óskilorðsbundin. Ákærðu voru jafnframt dæmdir til þess að greiða sex fórnarlömbum árásarinnar miskabætur. Þrír þeirra fá dæmdar 625 þúsund krónur, tveir þeirra 675 þúsund krónur og einn þeirra 1500 þúsund.

Málið vakti nokkra athygli fjölmiðla þar sem árásin þótti nokkuð hrottaleg. Í ákæru yfir mönnunum segir að þeir ásamt öðrum óþekktum karlmönnum, hafi ráðist að sjö löndum sínum, slegið þá ítrekað í höfuð og víðs vegar um líkama með hættulegum vopnum og bareflum. Árásarmennirnir beittu meðal annars járnstöng, járnröri, hamri, sleggju, gaddakylfu, golfkylfu, hafnaboltakylfu, hnífi og öxi.

Mennirnir hlutu mjög alvarlega áverka af árásunum. Einn þeirra hlaut meðal annars brotin augnbotn, brotin andlitsbein, handleggsbrot og rifbrot, annar hlaut beinbrot á báðum höndum. Sá þriðji hlaut skurð á höfði, opið sár á framhandlegg og yfirborðsáverka víðs vegar um líkamann. Þrír þeirra hlutu alvarlega skurði á hnakka.

Fórnarlömbunum voru dæmdar skaðabætur á bilinu 670 þúsund til ein og hálf milljón króna.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×