Erlent

Hjálp tekin að berast til Búrma

MYND/AP

Hjálp er tekin að berast til Búrma en hjálparstofnanir heimsins hafa lagt hart að herforingjastjórninni í Rangoon að hleypa björgunarliði inn í landið. Fellibylur reið yfir landið um helgina og eru minns 400 látnir.

Búrma er eitt einangraðasta land jarðarinnar og því eru litlar líkur taldar á því að herforingjarnir sem þar ráða ríkjum fallist á að hleypa hjálparstofnunum inn í landið í miklum mæli. Rauði krossinn hefur þegar hafið aðgerðir í héraðinu sem verst varð úti og eru samtökin að dreifa vatni og teppum .

Alþjóðastofnanir og yfirvöld í Búrma leggja nú mat á skemmdirnar af völdum fellibylsins. Anstæðingar stjórnarinnar sem flúið hafa landið krefjast þess að læknar og björgunarlið fái að athafna sig en óttast er að tala látinna sé mun hærri en staðfest hefur verið enda hefur ekki tekist að ná sambandi við þau svæði sem talið er að hafi orðið verst úti. Stjórnvöld í landinu hafa lýst yfir neyðarástandi á fimm svæðum í landinu, þar á meðal í höfuðborginni Rangoon.

Þann tíunda maí næstlkomandi verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá í landinu og segir ríkisfjölmiðill landsins að við hana verði staðið þrátt fyrir hamfarirnar.

Fulltrúar hjálparstofnana munu hittast í Bangkok í nágrannaríkinu Tælandi í dag til þess að samræma aðgerðir í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×