Innlent

Ráðgjafi heilbrigðisráðherra skipulagði ferð þingnefndar

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður VG, gagnrýnir að ráðgjafarfyrirtæki hafi skipulagt vinnuferð heilbrigðisnefndar Alþingis til Stokkhólms.

Fyrirtækið heitir InDevelop og vinnur ráðgjafarstörf í heilbrigðisráðuneytinu vegna fyrirhugaðra breytinga á sjúkratryggingakerfinu. Ögmundur sagði í grein í Fréttablaðinu í gær að ferðin hafi verið „farin undir handarjaðri verktakafyrirtækisins sem skipuleggur markaðsvæðingarátak heilbrigðisráðherrans".

Í samtali við Fréttablaðið sagði Ögmundur óeðlilega að málum staðið. „Það er mjög óeðlilegt að fyrirtæki sem hugsanlega hefur hagsmuna að gæta er fengið til að hafa milligöngu um samtöl þingmanna og viðmælenda þeirra."

Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar, segir fyrirtækið hafa annast skipulagningu funda eftir forskrift hennar sjálfrar. Fyrirtækið hafi aðgang að því fólki sem kom að innleiðingu nýs sjúkratryggingakerfis í Svíþjóð auk þess sem það kom á fundum með stjórnmálamönnum úr ólíkum flokkum. „Það er ekkert óeðlilegt við þetta, þvert á móti var ferðin gagnleg og ekki annað að heyra á nefndarmönnum en að þeir væru ánægðir með fyrirlestrana og fundina."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×