Innlent

Fimm í haldi vegna árásarinnar á Þorlákshöfn

Fimm konur og karlar eru grunaðir um aðild að fólskulegri líkamsárás í heimahúsi í Þorlákshöfn í nótt. Fórnarlambið er piltur um tvítugt og var hann skorinn og stunginn í háls, skorinn á höndum og í andliti og laminn að auki. Litlu mátti muna að árásin yrði hans bani.

Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á Selfossi og sjúkraliðs fyrripart nætur. Lögreglan kom á staðinn á þriðja tímanum og var pilturinn þá fluttur á sjúkrahúsið á Selfossi þar sem gert var að sárum hans. Hann var útskrifaður í dag.

Lögreglan á Selfossi sagði nú fyrir stundu að verið væri að yfirheyra fimm konur og karla sem öll hefðu verið á staðnum í nótt, með aðstoð túlks. Fórnarlambið og þeir sem eru yfirheyrðir eru samlandar en lögregla vill ekki gefa upp hvaðan fólkið er.

Ekki er vitað hvers konar vopni var beitt né hvað olli árásinni. Yfirheyrslur munu standa fram á kvöldið og að þeim loknum tekin ákvörðun um næsta skref.








Tengdar fréttir

Eggvopni beitt í alvarlegri árás á Þorlákshöfn

Eggvopni var beitt í líkamsárás í Þorlákshöfn í nótt. Árásin var að sögn lögreglu mjög alvarleg og virðist sem litlu hafi mátt muna að bani hafi hlotist af atlögunni. Hópur fólks er í haldi lögreglunnar á Selfossi í tengslum við málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×