Innlent

Svör borgarstjóra hrekja ekki fyrri fullyrðingar minnihlutans

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. MYND/valgarður

Minnihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur segir að svör borgarstjóra hreki í engu þær fullyrðingar minnihlutans í borginni að ráðning framkvæmdastjóra miðborgar hafi verið pólitísk ráðning á sérkjörum. Þetta kemur fram í sameiginlegri bókun minnihlutans í borgarráði í dag en þar svaraði borgarstjóri fyrir ráðningu Jakobs Frímans Magnússonar í starfið.

„Því er mótmælt að miðborg Reykjavíkur hafi hnignað á undanförnum árum," segir í bókuninni. „Þvert á móti voru öll verslunarpláss við Laugaveg í fullum rekstri fyrir síðustu jól auk þess sem Skólavörðustígur og hliðargötur hafa blómstrað. Þá eru í undirbúningi stærstu uppbyggingarverkefni sögunnar í miðborginni og nægir þar að nefna Tónlistar- og ráðstefnuhús, verslunarkjarna á Barónsreit og húsnæði Listaháskóla Íslands á Vegas-reit en samningar um tvö síðast nefndu málin náðust í tíð hundrað daga meirihlutans, einsog kunnugt er."

Þá segir ennfremur að skipulag og uppbygging við Laugaveg hafi hins vegar verið sett í uppnám með „kaupum á Laugarvegi 4 og 6 og óljósum yfirlýsingum og stefnu varðandi uppbyggingu meirihlutans á öðrum reitum." Afrakstur þessa hafi verið að að fjöldi verslunarplássa stendur nú auður í óvissu og að óvissa sé það versta sem fyrir miðborgina hefur komið. „Henni þarf að eyða. Áhuginn á miðborginni virtist ekki vakna fyrr en minnihlutinn benti á með blaðamannafundi að ítarleg skýrsla með tillögum um miðborgarmál hafði legið óhreyfð á borðum meirihlutans mánuðum saman," segir í bókuninni.

Einnig segir að vandinn sem vísað sé til vegna ráðningarinnar, en í svörum borgarstjóra kom fram að áríðandi væri að grípa skjótt til starfa í miðbænum, sé því að ýmsu leyti heimatilbúinn. „Þá er ljóst að nýráðinn framkvæmdastjóri miðborgarinnar sem ráðinn var af borgarstjóra án auglýsingar hefur kosið að taka sér hlutverk pólitísk talsmanns borgarstjóra fremur en faglegs embættismanns sem allir borgarfulltrúar eiga að geta treyst."

Minnihlutinn telur svör borgarstjóra undirstrika að Jakob sé ráðinn inn á launum sem eru mun hærri en sambærilegra verkefnisstjóra hjá Reykjavíkurborg sem eru á bilinu 322-453 þúsund krónur sem og annarra sérfræðinga á skrifstofu borgarstjóra sem hafa meðallaun 458 þúsund krónur. „Raunar eru kjör hins nýja starfsmanns umtalsvert hærri en skólastjóra, leikskólastjóra og framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðva í hverfum borgarinnar sem fara með umfangsmikinn rekstur og mannaforráð en það gerir framkvæmdastjóri miðborgarinnar ekki. Að þessu leyti blasir jafnframt við að starfið er ekki sambærilegt við starf miðborgarstjóra sem lagt var niður árið 2005 enda bar miðborgarstjóri fjárhagslega ábyrgð og fór með viðameiri verkefni, einsog samanburður starfslýsinga ber ljóslega með sér,"segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×